Matur og menning í 101 Reykjavík

Gamla hafnarhverfið er í miðju borgarinnar. Íbúar þurfa ekki að leita langt til að finna veitingastaði á heimsmælikvarða, söfn og fjölmarga tónleikastaði.

Miðpunktur verslunar

Austurhöfn er steinsnar frá kjarna reykvískrar verslunar. Íslenskir hönnuðir bjóða vörur sínar til sölu og vönduð alþjóðleg merki prýða hvern búðargluggann á fætur öðrum.

 

Gallerí og listasöfn

Hvaða miðill höfðar til þín? Málverk? Höggmyndir? Innsetningar? Gjörningar? Ertu meira fyrir skreytilist eða höfðar ögrandi og framsækin list frekar til þín? Hvar sem þú lendir á rófinu, gengurðu að vönduðum sýningum í galleríum og listasöfnum við Austurhöfn.

Tónlist öll kvöld

Í huga margra eru Reykjavík og tónlist óaðskiljanlegir þættir. Tónlistarlífið þrífst hvað best í næsta nágrenni við Austurhöfn þar sem reyndir jafnt sem óreyndir tónlistarmenn koma fram á hverju kvöldi.

 

Besta stund dagsins

Það er fátt jafn nærandi fyrir líkama og sál og að setjast niður með vel lagaðan bolla á fallegu kaffihúsi og virða fyrir sér mannlífið. Í nágrenni Austurhafnar má velja úr ótal kaffihúsum þar sem þú getur mælt þér mót við sjálfan þig – og aðra.

Andaðu að þér sjávarloftinu

Andaðu að þér sjávarloftinu í endurnærandi gönguferð um hafnarbakkann. Við sólarlag skarta Esjan, Akrafjall og Skarðsheiði sínu fegursta og úti á Granda bíður þín nýhristur drykkur.

Matargerð hvaðanæva að

Við Austurhöfn er heimurinn innan seilingar. Ilmurinn af íslenskri, tælenskri, franskri, ítalskri, indverskri, sýrlenskri, bandarískri og japanskri matargerð liðast um loftið í miðbænum – og þá er ekki nema brot af veitingaflóru hverfisins upptalin.

Gramsað eftir gullmolum

Í Kolaportinu er hægt að finna allt milli himins og jarðar, merkilegt og ómerkilegt. Safnarar gramsa eftir gullmolum í formi frímerkja, vínilplatna og bóka. Þarna er einnig hægt að finna ólíklegasta fatnað, húsbúnað og einstakt framboð af íslenskri og erlendri matvöru, sem og ekta íslenskt bakkelsi og nammi.